Aðgát – málþing um mynd­list Borg­hildar Óskars­dóttur

, til

Aðgát – málþing um myndlist Borghildar Óskarsdóttur

Aðgát – málþing um myndlist Borghildar Óskarsdóttur

Kjarvalsstaðir

, til

Í tilefni sýningar á verkum Borghildar Óskarsdóttur, Aðgát, og samhliða útgáfu er efnt til málþings sunnudaginn 12. maí um listakonuna og feril hennar.

Listasafn Reykjavíkur hlaut Öndvegisstyrk Safnaráðs árið 2021 til þess að rannsaka hlut kvenna í íslenskri myndlist í samstarfi við námsbraut í listfræði við Háskóla Íslands. Aðgát er annað af þremur verkefnum sem er afrakstur hinnar tímabundnu rannsóknarstöðu við safnið.

Dagskrá málþings:

13:00 Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Inngangsorð 13:10 Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir Aðgát - Rannsókn á ferli Borghildar Óskarsdóttur 13:40 Agnes Ársælsdóttir Þverfaglegir þræðir - Listrannsóknir Borghildar Óskarsdóttur

14:00 HLÉ

14:20 Inga S. Ragnarsdóttir Deiglumór - Notkun leirs við listsköpun á Íslandi 14:40 Torfi Tulinius "... er ek unni mest." - Um landið og sögurnar í verkum Borghildar. 15:00 Guðbjörg R. Jóhannesdóttir Að meta tengsl - Landslagsvernd og fagurferðileg gildi 15:20 Pallborð 16:00 MÁLÞINGI LÝKUR

Fundarstjóri: Markús Þór Andrésson

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir er sjálfstætt starfandi fræðimaður. Árin 2010–2021 starfaði hún sem lektor og fagstjóri listfræða við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa beinst að samtímamyndlist, bókverkagerð listamanna og að kynjafræðum innan lista. Aðalheiður Lilja er sýningarstjóri sýningar Borghildar Óskarsdóttur, Aðgát, og höfundur texta í meðfylgjandi sýningarskrá.

Agnes Ársælsdóttir er myndlistarmaður og nemi í Sýningargerð, miðlun og sýningarstjórnun. Hún sinnti rannsóknum fyrir sýninguna í starfsnámi frá Háskóla Íslands undir handleiðslu Aðalheiðar L. Guðmundsdóttur sýningarstjóra. Í erindi sínu beinir hún sjónum sínum að þeim rannsóknartengdu aðferðum sem Borghildur Óskarsdóttir notar við listsköpun sína.

Inga S. Ragnarsdóttir er myndlistarmaður sem hefur m.a. rannsakað sögu leirlistar hér á landi. Hún er einn höfunda bókarinnar Deiglumór: Keramik úr íslenskum leir 1930 – 1970. Í erindi sínu segir hún frá upphafsáratugum leirlistar og hvernig fagið tók breytingum þegar Borghildur og listamenn af hennar kynslóð stigu fram.

Torfi Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hann fyrst og fremst fengist við íslenskar miðaldabókmenntir, einkum fornaldarsögur Norðurlanda og Íslendingasögur. Hann fjallar um beina og óbeina notkun Borghildar Óskarsdóttur á bókmenntaarfinum í verkum sínum, einkum tilvísunum hennar í stöðu kvenna áður fyrr.

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir er dósent við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Hún situr í faghópi 1 í rammaáætlun ásamt öðrum sérfræðingum sem hafa það hlutverk að fjalla um verðmæti náttúru- og menningarminja. Guðbjörg fjallar um hvernig listsköpun Borghildar Óskarsdóttur rímar við ríkari skilning á merkingu landslags og þeim gildum sem eru tengd við fagurferðilega upplifun af íslenskri náttúru.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

Skráning nauðsynleg.