Íslensk vídeólist frá 1975-1990

14. sept. 2013 – 19. jan. 2014

Hafnarhús

Saga vídeólistarinnar er yfirleitt talin hefjast árið 1963 þegar kóreanski myndlistarmaðurinn Nam June Paik hélt sögufræga sýningu í galleríi Wuppertal í Þýskalandi. Þar notaði hann sjónvarpstæki til að sýna myndir af trufluðum sjónvarpsútsendingum. Sýningin markaði tímamót vegna þess að listamaðurinn beindi  sjónum sínum að rafeindamerkinu sem sjónvarpsmyndin er gerð úr. Nokkrum árum síðar komu upptökuvélar og segulbandstæki frá Sony á markað sem listamenn með ólíkan bakgrunn fóru að  nota til að taka upp myndir sem þeir sýndu ýmist beint eða af myndböndunum.

Þar með opnuðust áður óþekktir möguleikar fyrir listamenn sem fengu áhuga á þessum nýja miðli. Vegna sérstakra aðstæðna á Íslandi varð töf á því að listamenn sem störfuðu hér á landi fengju tækifæri til að kynnast vídeótækninni. Flestir sem fengust við vídeó á tímabilinu sem sýningin spannar höfðu komist í kynni við miðilinn erlendis en þeir voru einnig nokkrir sem hófu að gera myndbönd á Íslandi þegar leið á níunda áratuginn.

Markmiðið með sýningunni er að draga fram verk sem sýna fyrstu tilraunir íslenskra listamanna til að nota vídeómiðilinn til listsköpunar. Það gerist um svipað leyti og vídeóleigurnar héldu innreið sína í íslenskt menningarlíf og tónlistarmyndbönd urðu hluti af markaðssetningu nýrra hljómplatna.

Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að hafa verið sýnd hér á landi í fyrsta skipti á árunum milli 1980 og 1990 en hafa fæst sést á sýningum  síðan. Eitt verkanna er eftir  Steinu Vasulka, en hún var meðal frumkvöðla á sviði vídeólistar á heimsvísu og hefur starfað allan sinn feril í Bandaríkjunum. Ferill Steinu sker sig úr vegna þess að hún hafði lagt stund á vídeólist í rúman áratug og sýnt verk sín víða um heim þegar fyrstu vídeóverkin eftir íslenska  listamenn byrjuðu að sjást á sýningum á Íslandi - þar á meðal hennar verk.  Sýningunni er því ætlað að beina sjónum að níunda áratugunum og með hvaða hætti hann leikur  mikilvægt hlutverk í sögu íslenskrar vídeólistar. Sýningin beinir einnig sjónum að aðstæðum listamanna og  vekur upp spurningar um varðveislu vídeóverka og hvernig sýna á verk frá þessu tímabili.

Á sýningunni er að finna verk eftir eftirtalda listamenn: Steinu og Woody Vasulka, Magnús Pálsson, Ólaf Lárusson, Þór Elís Pálsson, Ástu Ólafsdóttur, Sigrúnu Harðardóttur, Sykurmolana, Oxsmá og Finnbjörn Finnbjörnsson.

Sýningarstjóri er Margrét Elísabet Ólafsdóttir.

Sýningarskrá


Dagskrá

Fimmtudag 3. október kl. 18
Listamannaspjall
Sigrún Harðardóttir listamaður leiðir gesti um sýninguna Íslensk Vídeólist frá 1975-1990.

Dagana 25. -27. október
Nordic Outbreak
Málþing og sýningar á norrænni vídeólist í tengslum við sýninguna Íslensk vídeólist frá 1975-1990. Nordic Outbreak er farandsýning á vídeólist frá Norðulöndum á vegum Streaming Museum, New York.

Laugardagur og sunnudagur 2.- 3. nóvember kl. 13
Leiðsagnir á ensku
Leiðsagnir um sýningarnar í Hafnarhúsinu á ensku.

Laugardag 30. nóvember kl. 11
Listsmiðja
Björk Viggósdóttir stýrir listsmiðja fyrir fjölskyldur í tengslum við sýningarnar í Hafnarhúsinu.

Laugardag 14. desember kl. 11
Leiðsögn með safnabeltið
Leiðsagnir um sýningarnar í Hafnarhúsinu með safnabeltið, en það er búið skemmtilegum verkfærum sem gerir safnaheimsókn fjölskyldufólks að nýrri upplifun og góðum leik.

Laugardag 12. janúar kl. 15
Sýningarstjóraspjall
Margrét Elísabet Ólafsdóttir sýningarstjóri leiðir gesti um sýninguna Íslensk Vídeólist frá 1975-1990.
 

Prenta Til baka
Steina Vasulka, Allvision, 1976

Steina Vasulka, Allvision, 1976

 

 

Hafnarhús

Heimsókn í safnið
Opið: 10:00 - 17:00
fimmtudaga 10:00 - 20:00
 

Kjarvalsstaðir

Heimsókn í safnið
Opið: 10-17
 

Ásmundarsafn

Heimsókn í safnið
1. maí - 30. sept. 10-17
1. okt. - 30. apr. 13-17