Alexander Rodchenko: Bylting í ljósmyndun

5. okt. 2013 – 12. jan. 2014

Kjarvalsstaðir

Yfirlitssýning á verkum rússneska listamannsins Alexanders Rodchenko sem var einn áhrifamesti listamaður Rússlands á fyrri hluta 20. aldar.

Það er mikill akkur fyrir Listasafn Reykjavíkur að fá verk Rodchenko til Reykjavíkur en sýningin hefur farið víða um heim síðustu ár. Áhugafólk um  myndlist, stjórnmálasögu, ljósmyndun og grafíska hönnun ætti ekki að láta sýninguna fram hjá sér fara. Sýningin er frá Ljósmyndasafni Moskvu.

Rodchenko fæddist í St. Pétursborg árið 1891 og starfaði sem listamaður og hönnuður í Moskvu frá árinu 1915. Rodchenko notaði marga miðla í sköpun sinni, byrjaði sem málari og skúlptúristi en sneri sér að ljósmyndun árið 1925. Hann var brautryðjandi á sviði ljósmyndunar og grafískrar hönnunar og hannaði m.a. bókakápur, veggspjöld og auglýsingar ásamt eiginkonu sinni og nánasta samstarfsmanni, Varvöru Stepanovu. Veggspjöldin eru meðal þekktustu verka Rodchenko og veita enn innblástur, nú tæpri öld síðar.

Listsköpun Rodchenko og fleiri framúrstefnulistamanna Rússlands þessa tíma er samofin þjóðfélagi örra breytinga, iðnvæðingar og rússnesku byltingunni. Rodchenko var einn lykilmanna í hópi róttækra listamanna í Moskvu sem kenndi sig við konstrúktívisma og trúðu því að listin væri tæki í þágu samfélags og framfara.

Rodchenko hafði mikla trú á áhrifamætti ljósmyndunar og langaði til að fá fólk til að virða ljósmyndun sem listgrein. Hann vildi fá fólk til að líta heiminn nýjum augum með myndunum sínum. Rodchenko var brautryðjandi í myndbyggingu og notaði óvanalega vinkla við myndatökur.
,,Mig langar að taka ótrúlegar ljósmyndir sem hafa aldrei verið teknar áður, myndir sem eru einfaldar og flóknar í senn, sem munu fanga  áhorfandann og þyrma yfir hann. Mér verður að takast þetta svo fólk fari að líta á ljósmyndun sem listform.” Þetta skrifaði Rodchenko í dagbók sína árið 1934 þegar útópían um breytt og framsækið réttlátt samfélag fjaraði út fyrir kennisetningu Stalíns um að öll list í landinu ætti að snúast um félagslegt raunsæi.  Rodchenko var harðlega gagnrýndur fyrir list sína og neyddist til að beygja sig undir hugmyndir ríkisins um listsköpun en hélt áfram að skrifa um ljósmyndun og fékk verkefni við að ljósmynda iðnaðaruppbyggingu og fleira á vegum ríkisins.

 

Sýningarstjóri: Olga Sviblova.
Framleiðandi: Ragnheiður Kristín Pálsdóttir.


Dagskrá

Sunnudag 6. október kl. 15
Guðmundur Oddur Magnússon – Goddur, prófessor við Listaháskóla Íslands, ræðir um verk Rodchenko í samhengi við sögu hönnunar.
Ragnheiður Kristín Pálsdóttir, framleiðandi sýningarinnar, fjallar um verk listamannsins í sögulegu og pólitísku samhengi Rússlands á fyrri hluta 20. aldar.

Sunnudag 20. október kl. 15
Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari ræðir um verk Rodchenko í tengslum við ljósmyndasöguna.

Sunnudag 3. nóvember kl. 14
Hildigunnur Birgisdóttir myndlistarkona stýrir listsmiðju fyrir fjölskyldur í tengslum við sýninguna.

Sunnudag 17. nóvember kl. 15
Benedikt Hjartarson, lektor við Háskóla Íslands, ræðir um verk Rodchenko í samhengi listar og  framúrstefnu á fyrri hluta 20. aldar.

Prenta Til baka
Alexander Rodchenko,
Stairs, 1930, © A. Rodschenko – V. Stepanova Archive 
©Moscow House of Photography Museum

Alexander Rodchenko, Stairs, 1930, © A. Rodschenko – V. Stepanova Archive ©Moscow House of Photography Museum

 

 

Hafnarhús

Heimsókn í safnið
Opið: 10:00 - 17:00
fimmtudaga 10:00 - 20:00
 

Kjarvalsstaðir

Heimsókn í safnið
Opið: 10-17
 

Ásmundarsafn

Heimsókn í safnið
1. maí - 30. sept. 10-17
1. okt. - 30. apr. 13-17