Hönn­un­ar­Mars: Nýting og nægju­semi

HönnunarMars: Nýting og nægjusemi

HönnunarMars: Nýting og nægjusemi

Hafnarhús

Nýting og nægjusemi er yfirskrift sýningar níu nemenda keramikbrautar Myndlistaskólans í Reykjavík.

Hugtökin nýting og nægjusemi verða okkur æ mikilvægari í daglegu lífi, en tilgangur sýningarinnar er að vekja athygli á því hversu mikilvægt er að hægja á neysluhyggju og þeim hraða sem við lifum við í samtímanum. Áherslur verkanna endurspegla meðal annars hugtök á borð við margnýtanleika, fjölnota, hugarró, einfaldleika, hversdagleika, neytendamiðað, sjálfbærni og notendavæna hönnun.

Sýningin Nýting og nægjusemi er unnin undir handleiðslu gipsmeistarans og hönnuðarins Jens Pfotenhauer. Í þriggja vikna áfanga hjá Jens lærðu nemendur ýmsar aðferðir í gipsmótagerð. Þeir gerðu mastera, gipsmót og lærðu notkun á postulínsmassa. Fengu þjálfun í að renna gips á bekk ásamt því að beita ýmsum handmótunaraðferðum við gerð gipsmóta.

Keramikbraut Myndlistaskólans er tveggja ára nám þar sem nemendur læra helstu aðferðir og tækni leirlistasmíðinnar. Þetta er fjölbreytt nám og kennsla en kennarar koma víða að. Nemendur öðlast kunnáttu og færni sem nýtist þeim síðan í áframhaldandi sköpun og námi.

Á meðan sýningu stendur munu nemendur skiptast á að hella postulínsmassa í mótin sín til að sýna ferlið.

Sýningin er opin á eftirfarandi tímum:

Miðvikudagur: 17:00-18:00

Fimmtudagur: 10:00-22:00

Föstudagur: lokað

Laugardagur 10:00-17:00

Sunnudagur: 10:00-17:00